Hvít sól

2018, Skaftfelli, Seyðisfirði
Innsetning - 24 litaðir fánar, stál og hljóðmynd
Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir og Sigrún Hlín Sigurðardóttir
Hljóðmynd: Daníel Helgason
Sýningarstjóri: Tinna Guðmundsdóttir

Hvít sól var fimmta sýning IYFAC. Sýningin var haustsýning Skaftfells árið 2018
Sýningin er innsetning sem listamennirnir vinna sem sameiginlegt hugverk


Texti úr sýningarskrá eftir Tinnu Guðmundsdóttur:

„Við á norðurhveli jarðar búum við þær öfgar að sólin er ekki áreiðanleg klukka, hún færir okkur þó mjúklega inn í árstíðirnar með öfgakenndri birtu og myrkri. Ef við myndum smíða okkar eigin sólarklukku, hvernig liti hún út og hvað myndi hún mæla?

Tilvist okkar er samofin tímanum og að einhverju leyti er tímaskynjun innbyggð í vitund mannsins. Frá unga aldri er tímatal þjálfað og snemma gerð krafa um að læra á klukku en hversdagslegur veruleiki okkar er sambland af huglægri og hlutlægri tímaskynjun. Sólin er lykilþáttur í þessu samhengi. Staða sólar á himni segir okkur hvað tímanum líður og mjög algengt er að til séu vörður í hverju bæjarplássi sem nýtist okkur sem náttúruleg sólarklukka.

Sýningin Hvít sól opnar tæpu hálfu ári eftir að gjörningurinn Hvít sól var fluttur á LungA, við gjörólíkar aðstæður. Um þetta leyti er sólin of lágt á lofti til að skína á bæjarstæðið, sem gerir það illgerlegt að lesa í landið til að vita hvað klukkan slær. Hópurinn tók með sér varðveittar sólir frá hásumrinu inn í veturinn og notaði þær til smíða aðra sólarklukku. Öllu rýminu er umbreytt í stóra innsetningu þar sem sólarfánar í yfirstærð spila lykilhlutverk. Fánarnir hanga, hlið við hlið, úr loftinu og mynda einhvers konar sólargangveg fyrir áhorfendur. Samhliða má heyra hljóðmynd sem túlkar sólarhringinn, eftir tónskáldið Daníel Helgason. Með því að færast um rýmið býðst áhorfandanum að upplifa tímann með öðru móti en dagsdaglega. Hin raunverulega sól, lífgjafi jarðar, er ekki lengur lykilþáttur heldur tilbúnar sólir sem bjóða upp á líkamlegri skynjun tímans, á stað sem að þessi árstími býður ekki upp á.“