BÓKAÚTGÁFA
Árið 2020 stofnaði IYFAC bókaútgáfu sem hefur það að markmiði að gefa út myndlistarbækur og bókverk eftir meðlimi IYFAC sem og einstaklinga innan hópsins. Fyrsta bókin sem gefin er út er Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftirá? eftir Höllu Birgisdóttur. Næsta áætlað útgáfa er bókverkið Hvít sól eftir IYFAC.
Bókin er uppseld
Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftirá?
Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftirá? er persónuleg myndræn frásögn um reynslu höfundar af því að missa tökin á raunveruleikanum og fara í geðrof. Bókin styðst við samspil teikninga og texta til þess að skapa heildstætt sjálfsævisögulegt bókverk. Hún er einhvers staðar á milli þess að vera hefðbundin sjálfsævisaga og myndlist.
Halla Birgisdóttir (f. 1988) er listamaður sem starfar á mörkum myndlistar og ritlistar. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og haldið einkasýningar vítt um land. Þetta er hennar fyrsta bók í fullri lengd.
Hvít sól
Bókverkið Hvít sól er myndræn frásögn um samnefndar sýningar hópsins. Myndlistarverkið Hvít sól er hugleiðing um samband mannanna við sólina. Á árunum 2017 - 2020 var verkið m.a. sýnt sem innsetning í Skaftfelli á Seyðisfirði, á listahátíðinni The Factory á Djúpavík og sem gjörningur á Plan B festival í Borgarnesi. Bókverkið dregur saman vinnuferli verksins sem og sýningarnar sjálfar.
Höfundar verksins eru: Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir og Sigrún Hlín Sigurðardóttir. Höfundur texta í bókverkinu er Steinunn Lilja Emilsdóttir.
Útgáfan er styrkt af Myndlistarsjóði